Boðberar (e. evangelists) og Íslandsbanki

Í kvöld hef ég verið að leita að réttri þýðingu á enska orðinu “evangelist”. Samkvæmt Dictionary.com er “evangelist” prédikari eða prestur, samkvæmt Google Translate þýðir það trúboði, en Orðabók.is þýðir það sem prédikari. Ég henti spurningunni út í Twitter-heim og eftir smá samtal þar held ég að besta niðurstaðan sé boðberi – einhver sem breiðir út fagnaðarerindið. Talsmaður kom einnig til greina en það náði einhvernvegin ekki að lýsa inntaki enska orðsins nógu vel.

Það er blautur draumur hjá öllum markaðsfólki að eignast sýna boðbera eða “evangelista”. Boðberi fyrirtækisins er ötull talsmaður þess og breiðir einmitt út fagnaðarerindi fyrirtækjanna. Ef þú átt uppáhaldsveitingastað og mælir með honum við alla sem þú þekkir ertu boðberi. Við gerum þetta öll. Það er rosalega mikilvægt að eiga ötula boðbera, enda er miklu líklegra að óánægðir viðskiptavinir viðri skoðanir sínar. Þá verður þú að hafa einhverja sem eru tilbúnir að tala þínu máli.

En hvað geta fyrirtæki gert til þess að vinna sér inn slíka talsmenn. Til dæmis er hægt að veita framúrskarandi þjónustu, vera með besta verðið, bestu vöruna eða fara fram úr væntingum þinna viðskiptavina. Þau fyrirtæki sem ná þessu eru með sterk vörumerki (e. brand). Sterk vörumerki eru það vinsæl í hugum neytandans að hann velur þau framyfir öll önnur, óháð verði. Bestu dæmin um þetta eru annars vegar Coca Cola og hins vegar Apple. Hver heldur þú að ástæðan sé að fólk biðji frekar um Kók heldur en Pepsi? Þetta er það sama, ofsykraður kóladrykkur. Vinsældir Apple þekkja allir. Steve Jobs heitinn virðist eignast nýjan boðbera með hverju seldu raftæki frá Apple.

Fyrirtæki geta líka borgað fólki til þess að tala vel um sig. Til eru dæmi um að stórfyrirtæki reyni að borga bloggurum sem þykja áhrifamiklir. Þetta er því miður leið sem er dæmd til að falla um sjálfa sig, þar sem pistlarnir sem viðkomandi myndi skrifa væru augljóslega litaðir og á endanum myndu lesendur sjá í gegn um skrifin. Og fyrir vikið myndi fyrirtækið sjálft missa trúverðugleika og koma verr út. Betra er að vinna fólk yfir með góðri þjónustu og góðu viðmóti.

En fyrst ég er búinn að tala almennt um vörumerki, boðbera og Apple ætla ég að segja dæmisögu máli mínu til stuðnings. Ég ætla að gerast boðberi fyrir Íslandsbanka og hér kemur af hverju.

Ég er búinn að vera í viðskiptum við Íslandsbanka í tæpt ár. Ég skipti yfir vegna þess að Tinna kærastan mín var með öll sín viðskipti þar og hennar fjölskylda þekkti vel inn í útibúið sem var á Háaleitisbraut. Þannig ég lét til leiðast og hoppaði inn einn daginn og talaði við þann þjónustufulltrúa sem mælt  hafði verið með við mig. Hún sá um allan flutninginn úr Arion Banka og bjó mér þannig í haginn að ég færi nú í aðeins hagstæðari kjaraleið heldur en ég átti að vera í, enda var ég fátækur námsmaður með engar eignir á bakinu. Hún gaf mér nafnspjaldið sitt og ef ég hef þurft eitthvað síðan hef ég bara sent henni tölvupóst og hún reddar því um leið.

Íslandsbanki fyrir Android

Þar að auki get ég stundað mín bankaviðskipti í farsímanum. Ég er með Íslandsbanka forritið sem gerir mér kleift að millifæra og greiða reikninga í símanum mínum sem er einmitt frábært fyrir mann eins og mig. Þar að auki er Íslandsbanki með Twitter aðgang og sér um að veita viðskiptavinum sínum og öðrum þjónustu þar. Ég hef til dæmis verið í sambandi við Íslandsbanka í gegn um Twitter varðandi app-málin hjá þeim. Þjónustan hjá þeim sem lætur þig vita þegar þú ert að fara yfir á kortinu þínu er til dæmis sprottin upp úr Twitter samskiptum, eftir því sem ég heyri. Það er frábært þegar fyrirtæki hlusta og bregðast við.

Í síðasta mánuði var ég aðeins að skoða fjármálin hjá mér og ákvað að líta aðeins yfir bílalánið mitt. Við nánari athugun á láninu komst ég að því að ég var að greiða of háa vexti að mínu mati. Lánið var tekið 2010 þegar fjármögnunarmarkaðurinn var í ruglinu og þar að auki var ég ekki í viðskiptum við bankann á þeim tíma. Ég hafði samband við Íslandsbanka (þessi deild heitir reyndar Ergo) með tölvupósti og spurði hvort hægt væri að færa vextina niður í þau kjör sem ég átti að fá. Það var nú minnsta vesenið og ég fékk þessu breytt samdægurs.

Til að toppa ánægju mína með Íslandsbanka var bréf frá þeim til mín sem beið eftir mér í forstofunni þegar ég kom heim úr vinnunni í morgun. Í bréfinu var skafa merkt Ergo fjármögnun og bréf sem þakkaði mér fyrir viðskiptin. Einnig kom fram hvernig ég gæti komist í samband við þau. Ég kunni vel að meta þetta, enda vantaði mig sköfu á þessum frostatímum.

Það má ýmislegt segja um íslensku bankana. Þeir hafa vissulega stigið rosaleg feilspor síðustu ár og eiga alla gagnrýni skilið. Að mínu mati hefur Íslandsbanki staðið sig best hvað varðar að byggja upp sína ímynd, þið megið alveg rífast við mig ef þið eruð ósammála. Ég er ánægður í mínum bankaviðskiptum hjá Íslandsbanka og ég gef þeim eitt stórt klapp fyrir. Birna Einarsdóttir, ég vona að þú sjáir þetta.

Þetta lesendur góðir var pistill frá boðbera. Ég er á engan hátt tengdur Íslandsbanka utan þess að eiga viðskipti við fyrirtækið. Endilega ekki vera hrædd við að viðra ykkar skoðun, enda getur hún verið allt önnur en mín.

Advertisements
5 comments
 1. Mæli með að þú lesir BS verkefnið mitt, ímynd og orðspor íslensku bankana fyrir og eftir bankahrun. Íslandsbanki fer þar stórum & tók þennan ímyndarslag á nýtt level

 2. ps: það vantar svo like takkann herna undir blogspot í nýja lookinu. Google+ að reyna að taka yfir 😉

 3. Hjalti R said:

  Ertu með það inni á Skemmunni?

 4. vilhelmjensen said:

  Eins og þú veist er móðir mín í Landsbankanum svo ég hef aldrei séð ástæðu til þess að færa mig eitthvert annað. Þetta þykir mér hinsvegar skemmtileg lesning, það er nefninlega svo ótrúlega algengt að maður lesi ekkert nema neikvæðni í garð fyrirtækja og það er hreint út sagt leiðinlegt til lengdar.Ef við tökum sem dæmi tryggingarfélög á Íslandi sem hafa eftir hrun (og eflaust fyrir líka) nánast eingöngu fengið neikvæða umfjöllun almennings (og fjölmiðla) sökum viðskipta-fyllerís hjá eigendum þá veit ég þess dæmi að það séu margir sáttir viðskiptavinir hjá þeim í dag (ég get reyndar einungis talið þá á annarri hendi en það er af því að ég hef ekkert leitað eftir viðbrögðum nema hjá örfáum einstaklingum). Ef ég hinsvegar sé einhverja umfjöllun um tryggingar á vefnum þá heyrist ævinlega hæst í einhverju liði sem vill meina að þetta séu eintómir loddarar og glæpamenn og það hreinlega borgi sig ekki að tryggja hjá neinum.VÍS, hvort sem þú trúir mér eða ekki, bætti pabba 220 þúsund krónur* fyrir búnað sem var ekki einu sinni tryggður. Af hverju? Jú þeir sögðu einfaldlega, þú ert búinn að vera tjónalaus hjá okkur svo lengi að við hljótum að geta fiffað eitthvað. Á ég virkilega að trúa því að hann sé eini maðurinn á Íslandi sem hafi lent í álíka reynslu? Það er eins og margir gleymi mannlega þættinum þegar kemur að fyrirtækjum. Þó svo að það sé kannski ekki stefna frá stjórn fyrirtækis að "go out of your way" fyrir kúnnann, þá er samt haugur af starfsmönnum í hinum og þessum fyrirtækjum sem gera nákvæmlega það. Hversvegna er fólk samt svona tregt til að hæla þeim sem það gera? Ég legg til að við reddum okkur vinnu hjá einhverjum vefmiðli við að veita fyrirtækjum hrós vikunnar (eitthvað sem mig hefur langað að gera síðan ég kom æpandi hamingjusamur út úr Íhlutum í Skipholti fyrir c.a. 2 árum síðan). Hugmyndin var reyndar að hanna vefsíðu sem bendir neytendum á hvar sé að finna afbragðs þjónustu en sökum leti og vankunnáttu varð auðvitað aldrei af því (neytendavaktmaðurinn Vilhelm sjáðu til, hahaha).Tek að ofan fyrir þér fyrir þennann pistil, hann var góð lesning.(P.S. like takkar og sambærileg tól eru af hinu illa – frekari skýringar ekki í boði þar sem ég kem út sem Paranoid Pete)(P.P.S. Er engin leið að opna fyrir athugasemdir hérna öðruvísi en að maður sé með notandi einhverra miðla? Það tekur nefninlega alltaf herfilega langan tíma að fá athugasemdirnar mínar hérna í gegn)

 5. vilhelmjensen said:

  Ég skal aldrei koma með svona langloku aftur, héðan í frá verður þetta bara "þumall upp" eða "þumall niður".

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s