Topplistar 2013 – 10 bestu plöturnar

Í ár var furðu auðvelt að setja saman þennan lista. Fyrstu 8 plöturnar röðuðu sér í raun bara sjálfar þökk sé “big data”. Ég skoðaði bara það sem var mest spilað hjá mér á Last.fm og það stemmdi svona nokkurn veginn við það sem ég var búinn að vera að hugsa. Er ekki eðlilegast að þú hlustir mest á þær plötur sem þér þykir bestar?

Þær sem voru næstar inn á listann voru m.a. If You Wait með London Grammar, Evil Friends með Portugal. The Man, og Immunity með Jon Hopkins. Það sem mér fannst standa upp úr var hversu mikið af góðri erlendri popptónlist kom út. Justin Timberlake átti góða plötu sem og rappkóngarnir Jay-Z og Kanye West. Svo voru nýgræðingar á borð við Haim og Lorde að koma sterkar inn sem mótvægi við Miley Cyrus og Justin Bieber. Það er semsagt von fyrir popptónlist ennþá!

Það sem olli mér mestum vonbrigðum þetta árið var íslensk útgáfa. Árið 2012 var rosalegt í íslenskri tónlist þar sem hver önnur snilldarskífan var gefin út. Það voru þó nokkrir ljósir punktar þar sem t.d. Mammút, Tilbury og Emelíana Torrini gáfu út mjög góðar plötur. 2014 verður betra, ég finn það á mér.

En svona er listinn:

10. Urban Cone – Our Youth

urban cone

Urban Cone eru hressir sænskir guttar sem spila elektró-popp. Our Youth er fyrsta plata þeirra. Ég rambaði á þá fyrir tilviljun þegar ég var að skoða norska tónlistarhátíð og varð strax hrifinn. Ég myndaði sterk tengsl við þessa plötu í vor, enda er eins og hún sé samin til að hlusta á hana með hækkandi sól.

Í heildina er platan mjög sterk en að sjálfsögðu eru nokkur lög sem standa upp úr. Mín uppáhalds eru “Kids & Love”, “We Should Go To France” og “Winter’s Calling”.

9. Nick Cave & The Bad Seeds – Push The Sky Away

push the sky

Ég er tiltölulega nýbyrjaður að hlusta á Nick Cave. Eins og fólk veit þá getur hann oft verið frekar erfiður og þannig er það með þessa plötu. Ég var mjög lengi að taka hana í sátt. En sem betur fer komst ég yfir þann barnaskap því þessi plata er frábær. Tónsmíðarnar eru æðislegar og það er rosalegur stígandi í henni, alveg út í gegn, sem sést einna best í þekktasta laginu, “Jubilee Street”. Svo skemmdi ekki fyrir að sjá hann troða upp á bestu tónleikum sem ég hef séð á All Tomorrow’s Parties í sumar. Þvílíkur nagli!

8. Mammút – Komdu til mín svarta systir

komdu til mín

Fyrri íslenska platan á þessum lista. Mammút er orðin ein af okkar helstu hljómsveitum og stimplar sig sko rækilega inn með þessari plötu. Textarnir eru fallegir, ljóðrænir og minna helst á hryllingsmynd. Þegar ég hlustaði fyrst á plötuna þá sá ég fyrir mér yfirgefið hús við sjóinn þar sem enginn býr nema draugar og brimið skellur á fjörunni nokkrum metrum neðar. En það sem er alltaf best við Mammút er að fara á tónleika. Hvert gigg er einstakt og þú labbar aldrei vonsvikinn út.

Lögin “Salt”, “Tungan” og “Blóðberg” komu öll til greina á listann yfir bestu lög ársins.

7. On An On – Give In

give in

Eina Airwaves platan þetta árið. On An On er mjög fallegt þríeyki frá Minneapolis í Bandaríkjunum. Give In er þeirra fyrsta plata. Þau komu og spiluðu frábært gigg í Hörpunni laugardagskvöldið á Airwaves og áttu eitt af 10 bestu lögum ársins.

Give In er falleg og heilsteipt plata þar sem gítar og synthar blandast saman til að búa til melódíu. Þau lög sem standa upp úr eru “Every Song”, “The Hunter” og “Bad Mythology”.

6. Haim – Days Are Gone

haim days are gone

Þrjár systur sem semja létta popptónlist og syngja um samskipti kynjanna. Þessi fjölskylda er ein sú mest umtalaða í bransanum í dag enda hafa þær verið að vekja athygli fyrir frumraun sína Days Are Gone. Og eins og allt annað gott fólk eru þær Íslandsvinir, en þær spiluðu á Iceland Airwaves í fyrra.

Days Are Gone er eiginlega æðisleg plata. Melódíurnar eru mjúkar og grípandi og textarnir fjalla um eitthvað sem maður getur auðveldlega tengt við.

Lög sem standa upp úr eru m.a. “The Wire”, “If I Could Change Your Mind” og “My Song 5″.”The Wire” var til dæmis fyrsta lagið inn af bekknum á listann yfir bestu lög ársins.

5. Autre Ne Veut – Anxiety

anxiety

Autre Ne Veut er eins manns hljómsveit frá Brooklyn, New York. Eftir að hafa útskirfast með Masters gráðu í sálfræði ákvað hann að fara út í tónlistarbransann og nýta hann í að fá útrás fyrir kvíðaröskun. Anxiety er hans leið til að eiga við þá röskun. Textarnir á plötunni fjalla um að díla við fráfall náinna ættingja og að líða eins og utangarðsmanni í samfélaginu. Þau lög sem standa upp úr eru “Gonna Die”, “Counting” og “Ego Free, Sex Free”.

4. Tilbury – Northern Comfort

northern comfort

Tilbury átti bestu plötu ársins í fyrra, Exorcise. Það kom mér því á óvart að þeir skyldu senda frá sér nýja plötu strax ári seinna. Northern Comfort er frábrugðin eldri systur sinni. Hún er mun dimmari og drungalegri. Eins og sú fyrri er gott flæði í gegn um plötuna en hún nær ekki alveg sömu hæðum og Exorcise gerði. Engu að síður er hér fantagóð plata á ferð!

Textarnir fjalla um sambönd og samskipti kynjanna en þeir hljóma eins og þeir séu sungnir til ákveðinnar manneskju. Lög eins og “Turbulence”, “Transmission” og “Animals” standa upp úr á annars mjög heilsteiptri plötu.

3. Daft Punk – Random Access Memories

random access memories

Hversu oft á ég að lýsa yfir ást minni á þessari “hljómsveit”? Þessir menn eru náttúrulega lifandi snillingar. Random Access Memories skók heimsbyggðina eins og jarðskjálfti. Markaðssetningin var svo fullkomin að það vissi hvert einasta mannsbarn að Daft Punk var að gefa út nýja plötu. Bætum við monster-hittaranum “Get Lucky” og platan bara gat ekki klikkað.

Sem hún gerði ekki! Hún er að vísu nokkuð tormelt og þurfti nokkrar spilanir enda eru þeir að fara á nýjar slóðir. Á RAM fara Daft Punk með okkur í gegn um tónlistarsöguna og fá til liðs við sig nokkra af þeim tónlistarmönnum sem þeir hafa litið upp til í gegn um tíðina eins og t.d. John Williams og Giorgio Moroder. Bætum við nokkrum góðum vinum eins og Pharrell og Julian Casablancas úr The Strokes og úr verður meistaraverk.

2. Arcade Fire – Reflektor

reflektor

Ég var búinn að bíða allt árið eftir þessari plötu. Eins og ég hef áður sagt þá var það einn maður sem olli því – framleiðandinn James Murphy. Arcade Fire hafa alltaf gefið út góða tónlist, en að þessi blanda gat bara ekki orðið annað en epísk!

Reflektor er geðveik plata, mjög ólík því sem Arcade Fire hefur gert áður. Það má klárlega heyra LCD Soundsystem áhrifin í lögum eins og “Reflektor” og “Porno” en líka alls konar nýtt. “Here Comes The Nighttime” er til dæmis skrifað undir áhrifum frá Haítí, en söngkonan Regine Chassange á ættir sínar að rekja þangað. Þá er sterk skírskotun í gríska sagnabálka en tvö lög eru tileinkuð grísku harmsögunni af Orfeusi og Evridís, sem og plötuumslagið.

Í heildina litið alveg frábær plata!

1. Kanye West – Yeezus

yeezus

Ég get ekki annað en sett Yeezus með Kanye West á toppinn. Bæði er hún stórgóð og svo er hún bara sú mest spilaða hjá mér á þessu ári. Gögnin ljúga ekki.

Þessi plata er rosaleg. Ég man að eftir fyrstu hlustun fylltist ég viðbjóði, enda er orðbragðið og viðfangsefnið oft á tíðum ógeðslegt. En það var eitthvað sem fékk mig til að hlusta alltaf aftur og aftur, og svo aftur og aftur. Yeezus er mjög umdeild plata og hafa gagnrýnendur keppst við að annað hvort lofsama hana eða rakka niður. Textarnir koma frá hjartanu líkt og venjulega þegar Kanye á í hlut, hvar sem það hjarta kann að vera, og er einskonar uppgjör hans við fortíðina, frægðina og gremju vegna þess að vera ekki tekinn alvarlega.

Kanye hefur sjálfur verið áberandi á árinu, eignaðist barn með Kim Kardashian, veitti viðtal á BBC Radio 2 sem vakti mikla athygli og lennti í hatrammri orðræðu við Jimmy Kimmell í kjölfarið auk þess að úthúða Nike. En með afrakstur plötunnar getur hann verið ánægður því honum hefur tekist að hrista þokkalega upp í tónlistarheiminum.

“Blood On The Leaves”, “Bound 2”, “Hold My Liqour” eru allt góð lög, en annars er mjög erfitt að draga út eitt og eitt lag þar sem Yeezus er best notið sem ein heild.

—————————————————————————————————————————————-

Þar með líkur árslistinum fyrir árið 2013. Þeir urðu bara 2 á þessu ári, en ég kenni tímaleysi og framkvæmdum á baðherberginu um það. 

Gleðilegt ár!

hjaltitinna

1 comment
  1. Að mínu mati á Yeezus ekkert heima þarna. Finnst hún hreint út sagt hræðileg án þess að útskýra það eitthvað nánar 🙂 Nokkrar plötur þarna sem ég á ennþá eftir að fara yfir en Mammút kemur mjög sterk inn

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s