Topplistar 2013 – 10 bestu lögin

Þessi árstími færir okkur svo mikið gott. Frábæran mat, nóg af fríi, samverustundir með vinum og ættingjum og síðast en ekki síst samantektir á því sem stendur upp úr á árinu.

Að vanda er ég búinn að vera að vinna í mínum topplistum fyrir tónlistarárið 2013 og er svona að detta niður á lokaniðurstöðurnar. Í fyrra gerði ég 3 lista – “Topp 10 bestu plöturnar“, “Topp 5 vonbrigði” og “Topp 5 Come-back“. Í ár ætla ég að aftur að gera 2-3 lista, fer eftir tíma og nennu. Byrjum á Topp 10 bestu lögum ársins.

Þetta var eiginlega erfiðasti listinn til að setja saman af því það er úr svo rosalega mörgu að velja. Ég ákvað, líkt og í fyrra, að vera ekki með sér-íslenska lista í ár þar sem mér finnst það ekki sanngjarnt. Íslensk tónlist er alveg á pari við erlenda og á að vera dæmd eftir því. Lögin eru ekki í neinni sérstakri röð, heldur endurspegla þau það sem virkilega stóð upp úr.

10. San Fermin – Sonsick

Alltaf detta Airwaves-sveitir inn á topplistana. Ég sá þau tvisvar á hátíðinni í ár. Þetta er ein af þessum hljómsveitum sem hefur fullt til brunns að bera, en eru ennþá að finna sinn hljóm, og platan þeirra ber keim af því. Lagið “Sonsick” var spilað á repeat í lok október í aðdraganda Iceland Airwaves. En þó lagið sé frábært er það þó sérstaklega þessi flutningur sem mér finnst stórkostlegur.

9. Pascal Pinon – Ekki vanmeta

Söngkonan úr Samaris er í annarri hljómsveit með tvíburasystur sinni. Sú ber nafnið Pascal Pinon og þær stöllur gáfu úr plötuna Twosomeness snemma á þessu ári. Þær eru líka þess heiðurs aðnjótandi að vera eina íslenska sveitin á þessum lista. Ég renndi plötunni í gegn og það var nú ekkert sem var mikið að grípa mig. Nema þetta lag sem mér finnst alveg frábært!

8. London Grammar – Strong

London Grammar á eina af betri plötum ársins í If You Wait. Það væri hægt að velja nokkur lög af þeim grip en “Strong” var það sem greip mig og var spilað á repeat – aftur og aftur og aftur. Heyrirðu ekki angistina í rödd söngkonunnar? Fallegt og gott.

7. On An On – Every Song

On An On var sú sveit sem ég var einna spenntastur fyrir á Airwaves í ár. Ég var búinn að hlusta á plötuna Give In allt árið og mætti í Hörpuna til að bera þau augum (og eyrum). Flutningurinn var æðislegur og ekki skemmdi fyrir að heyra þetta lag í lok tónleikanna. Fallegt melódískt ástarljóð skotið með synthum og rafmagnsgítar. Gerist ekki betra.

6. Blood Orange – Uncle Ace

Af einhverjum ástæðum er platan Cupid Deluxe að detta inn á mörgum topplistum. Ég get ekki skilið lægtin í kringum þessa plötu eftir að hafa rennt henni í gegn nokkrum sinnum. Það er hins vegar eitt lag á plötunni sem er gjörsamlega geðveikt og það er “Uncle Ace”. Rosalegt grúv í gegnum allt lagið en það er á mínútu 2:45 sem mann langar til að hoppa, kýla út í loftið og dansa af öllum lífs- og sálarkröftum. Og ég mæli með því að þú gerir það!

5. Arcade Fire – Reflektor

Þegar ég heyrði að James nokkur Murphy væri að framleiða nýju Arcade Fire plötuna þá fór sko um okkar mann. Fyrir þá sem ekki vita er James Murphy snillingurinn á bakvið LCD Soundsystem sem er mín allra uppáhalds hljómsveit. Svo heyrði ég Reflektor. Það er allt geðveikt við þetta lag. Í fyrsta lagi er það dansvænt að hætti Murphy, synthaskotið og poppað, með hljómi frá Arcade Fire og til að toppa allt þá syngur David Bowie bakraddir! Ef þú færð ekki gæsahúð á mínútu 4:44 þá ertu eitthvað skrítin/n.

4. Autre Ne Veut – Counting

Anxiety með Autre Ne Veut var ein fyrsta platan sem ég uppgötvaði með hjálp Spotify. Nýtum tækifærið og skellum í eitt HALLELÚJAH fyrir Spotify. “Counting” er lag nr. 2 á plötunni og fjallar um hræðslu höfundarins um að í hvert skipti sem hann heyrir í ömmu sinni þá sé það í síðasta skipti. Þó textinn sé ekki beint að halda uppi partýi getur tónlistin undir gert það. Þvílíkur slagari!

3. Kanye West – Blood On The Leaves

Það voru nokkur lög sem komu til greina af Yeezus. Sumir segja hana eitt mesta sorp sem hefur komið út síðustu ár, aðrir segja hana meistaraverk. Ég er í seinni hópnum. “Blood On The Leaves” byrjar í mixi af “Strange Fruit” með Billie Holiday, fer síðan yfir í rólegt auto-tune af Kanye, hækkar síðan upp í blástraundirspil áður en það endar í rosalegu versi þar sem hann ber saman skilnað milli karls og konu við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku. Þegar lagið er búið veistu ekki fyrir hvaða trukki þú lentir!

2. Arctic Monkeys – Do I Wanna Know?

Þetta lag er það besta sem Arctic Monkeys hafa gefið frá sér mjög lengi. “Do I Wanna Know?” fjallar um að reyna að ná aftur í elskhuga sem er farinn. Dimmur og þykkur bassi með djúpum rafmagnsgítar. Lagið tekur hvorki hæðir né dýfur en keyrir í gegn af þvílíku afli engu að síður. Verst að platan var ekki eins góð.

1. Daft Punk – Get Lucky

Þó að lögin á þessum lista séu yfir höfuð ekki í röð þá get ég samt nokkurn veginn sagt að þetta er langbesta lag ársins. Og þvílíkur monster-hittari! Nógu mörg orð hafa verið látin falla um Daft Punk, Random Access Memories og “Get Lucky”. Meðal annars hér á Hugrenningunum. Hlustaðu bara á lagið og dansaðu.

—————————————————————————————————————————————-

Það höfum við það. Bestu lög ársins 2013 að mínu mati. Eins og áður segir var gríðarlega erfitt að velja listann enda mjög margt mjög gott á árinu. Það var t.d. erfitt að skilja eftir fleiri lög með Kanye West og Arcade Fire. Að sama skapi voru nokkur íslensk lög sem duttu út við síðasta niðurskurð. En til gamans er hérna listinn sem ég var að vinna með. Hann telur 28 lög af öllum tegundum.

Advertisements
1 comment

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s