#Airwaves11 samantekt

Jæja þá er tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves árið 2011 lokið. Þetta var nú mikið gaman. Ég held að ég hafi séð á þriðja tug tónleika, sumt gott, sumt slæmt og sumt geðveikt. Til að telja upp nokkra þá sá ég Gang Related, Agent Fresco, HAM, Mammút, Sizar, Other Lives, Lights on the highway og fleiri og fleiri. Vinsælasti tónleikastaðurinn var sennilega Listasafn Reykjavíkur enda er það svona stærsta venue-ið og stærstu hljómsveitirnar eru yfirleitt þar. Ég ætla að taka saman smá samantekt dag fyrir dag.

Miðvikudagur

Agent Fresco @ NASA

Ég eyddi meirihluta miðvikudagsins inni á Nasa, enda var mjög flott uppröðun af íslenskum hljómsveitum þar. Ég byrjaði þó kvöldið á að sjá vini mína í Gang Related á Dillon. Þeir eru að fara að gefa út plötu á Gogoyoko næstu daga þannig ég mæli með að fjárfest sé í henni. En eftir það, skokkaði ég niður á Nasa og mætti eldhress til að sjá Mammút. Þau ollu mér smá vonbrigðum verð ég að segja, tóku mikið af nýju efni sem er ekki jafn kröftugt og það sem þau hafa verið að gera. Auk þess sem söngkonan virðist vera að færa sig út í það að reyna að syngja og bera sig ALVEG eins og Björk. En áfram hélt kvöldið og á stokk stigu teknódúddarnir í Sykur. Þau voru svona mjeh… Ágætis tónlist en sviðsframkoman var bara frekar vandræðaleg verð ég að segja. Söngkonan byrjaði á því að drepa þetta með því að hlaupa inn á svið og öskra “Whooooo! Ég er single!”. Alveg off verð ég að segja.

Næstir á svið voru stuðboltarnir í Agent Fresco. Þeir rústuðu sviðinu alveg hreint! Þvílíkur kraftur og þvílík orka. Tónleikarnir þeirra voru klárlega þeir bestu á miðvikudagskvöldinu og í topp 5 á hátíðinni allri! Of monsters and men fengu síðan það erfiða verkefni að vera næst á svið. Þau stóðu sig alveg prýðilega, eiginlega miklu betur en ég hafði haldið. Nýja platan þeirra er ágæt, en ekkert voðalega kröftug. Þau bættu það upp með því að vera 9 saman á sviðinu sem jók kraftinn heilmikið og þéttleikann að sama skapi. Aldeilis fín frammistaða hjá þessari ungu hljómsveit.

Fimmtudagur

Fimmtudagurinn var allur í Listasafni Reykjavíkur. Ég mætti frekar snemma þangað og sá Hjaltalín sem er hljómsveit sem ég hef aldrei haldið upp á, þó við berum sama nafn. Klukkan 22 mættu svo krakkarnir í Retro Stefson á sviðið og ÞAÐ eru sko skemmtikraftar! Allir í húsinu dönsuðu og þau náðu svo sannarlega að kveikja stemningu. Beach House voru næst á dagskrá en þau spila lágstemmt indie rokk. Ég verð að segja að mér finnst mjög athyglisvert að nýta Retro Stefson á undan Beach House þar sem þetta eru 2 gjörólíkar tónlistarstefnur, Retro Stefson að gíra alla upp en svo eru allir kýldir niður aftur með Beach House. Ég er kannski full dramatískur núna, því tónleikarnir sjálfir voru bara sérdeilis prýðilegir og ég var mjög ánægður með þá.

Beach House @ Hafnarhúsið

Föstudagur

Mugison @ Harpa

Ég fór frekar seint út á föstudeginum. Fyrstu tónleikarnir sem ég sá voru kl 21:40 en þá kom meistari Mugison fram. Hann var virkilega góður á sviði – eins og alltaf. Í fyrsta lagi er hann fær tónlistarmaður, í öðru lagi umkringir hann sig fleiri snillingum og í þriðja lagi skín það svo greinilega í gegn hversu gaman honum þykir að því sem hann gerir. Klárlega einn af topp 5 tónleikunum í ár!

Eftir Mugison ætlaði ég að hoppa yfir á  Who Knew, en staðurinn var bara svo stappaður að það varð ekkert af því. Frekar svekktur þar sem ég hef aldrei séð Who Knew áður. En það þýddi ekkert að gráta það og stefnan var tekin á Dungen í Hafnarhúsinu. Dungen var sennilega leiðinlegasta hljómsveitin sem ég sá í ár. Soundið var bara ekki með þeim og mér fannst þetta bara vera léleg útgáfa af Dikta.

En eftir Dungen var komið að Sigurjóni Kjartanssyni og félögum í HAM. Hver einasti krakki á mínum aldri ólst upp við að horfa á Sódóma Reykjavík og þarmeð hafa hlustað á Partýbæ. HAM er yfir 20 ára gömul hljómsveit en var samt að gefa út sína aðra plötu í síðasta mánuði. Það var mikið upplifun að sjá þessa gömlu jálka syngja um “Ingimar” og “Dauðar hórur”. Salurinn var líka alveg að fíla þetta sem hjálpaði HAM að tryggja sig inn á topp 5 listann.

Laugardagur

Dale Earnhardt jr. jr @ Tjarnarbíó

Strax klukkan 20 var ég mættur í Listasafnið að horfa á Samúel J. Samúelsson Big Band. Það er alltaf gaman að hlusta á smá funk með Samma í Jagúar. Ég kláraði reyndar ekki tónleikana heldur hljóp yfir í Tjarnarbíó til að mæta á Dale Earnhardt jr. jr. Ég var mættur aðeins fyrr þannig ég sá nokkur lög með hljómsveitinni Sizar, sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði ekki heyrt mikið með Dale félögunum en þarna voru á ferðinni 2 strákar ásamt trommara, sem skiptust á að spila á syntha, gítara, bassa og syngja. Þvílík snilld! Ég get sagt að þetta voru klárlega skemmtilegustu tónleikarnir í ár og ég er strax farinn að leita að disknum þeirra, “It’s a corporate world”. Besta atriðið var klárlega þegar þeir fóru í sjálflýsandi jakka, kveiktu á fjólubláu ljósi og sungu “I wanna dance with somebody”. Alltaf gaman að uppgötva eitthvað svona nýtt og ferskt.

Ég labbaði skælbrosandi út úr Tjarnarbíó og henti mér yfir í Listasafnið aftur og hlustaði þar á hljómsveitirnar Other Lives og Austra sem voru báðar mjög góðar en ég bara gat ekki einbeitt mér að þeim þar sem ég var orðinn svo spenntur fyrir aðalnúmeri hátíðarinnar – James Murphy. Fyrir þá sem ekki vita er James Murphy maðurinn á bakvið LCD Soundsystem, sem er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum. Auðvitað þurfti maður að berja átrúnaðargoðið augum. Hann var þó ekki sem LCD Soundsystem heldur bara með DJ set á eigin vegum. Hann olli engum vonbriðgum og stóðst fyllilega væntingar og nældi sér klárlega inn á topp 5 2011. Restin af kvöldinu fór í annars vegar Lights on the Highway og Legend á Glaumbar og Gauk á Stöng en svo var það bara Pizza Pronto og heim.

James Murphy @ Faktorý

Samantekt

Bestu tónleikarnir

Dale Earnhardt jr jr
Agent Fresco
HAM
Mugison
James Murphy DJ set

Bestu bissness mennirnir

Eigendur KEX hostel – staðurinn var STAPPAÐUR alla helgina

Besti ferðafélaginn

Airwaves Appið – það er snilld að geta verið með dagskrána svona í símanum sínum

Besti matur hátíðarinnar

Súpa á Svarta Kaffi

Advertisements

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s