Tilboðsmanía

Við erum í miðri tilboðsmaníu. Hún hófst snemma í vor með tilkomu Hópkaup.is, með stuðningi frá Dilar.is og fékk svo byr undir báða vængi með fæðingu Aha.is. Í kjölfarið spruttu upp bæði Kaupmáttur.is og Kaupnet.is og  svo nú fyrir stuttu kom fram á sjónarsviðið WinWin.is. Það gera samtals SEX síður sem bjóða upp á það sama hérna á litla Íslandi.

Þessar síður græða sína peninga með því að hafa samband við fyrirtæki og bjóða þeim að selja hjá sér vöru eða þjónustu á mun lægra verði en gengur og gerist. Það eru allskonar fyrirtæki sem nýta sér þjónustuna, t.d. er Veggsport að selja árskort á Hópkaup.is og Sumarferðir eru að selja ferð til Tenerife á WinWin.is. Tilboðssíðurnar kaupa þessi gjafabréf t.d. á 50% afslætti og smyrja síðan ofan á einhverri álagningu. Fyrirtækin fá fjöldakaup, nýja viðskiptavini og auglýsingu en vefsíðan tekur mismuninn. Viðskiptavinir fá svo vöru á mun lægra verði en ella. Þetta getur verið mjög sniðug leið til að kynna sig og fá nýja viðskiptavini. Einnig er þetta sniðugt til að selja vöru með hárri framlegð í miklu magni, nú eða losa sig við úreldar birgðir.

Nú þegar virðast sigurvegararnir vera farnir að skera sig frá og skilja hina eftir, en Dilar.is hefur ekki verið með nýtt tilboð svo vikum skipti og það virðist vera lítil hreyfing bæði á Kaupmætti og Kaupneti. Hópkaup hafa náð miklum vinsældum út á það að hafa verið fyrstir á markaðinn en Aha var fyrsta síðan til að vera með tilboð fyrir fólk úti á landi. WinWin.is virðist síðan vera með ágætis bakland en áður en hún fór í loftið voru meðal annars auglýsingar á strætóskiltum og í blöðum til að vekja athygli á henni. Hún er síðan að skera sig úr sem svona “fínni” tilboðasíða fyrir konur, þ.e. verið að selja snyrtimeðferðir, spaferðir og nudd svo eitthvað sé nefnt.

En hvaðan kemur þessi snilldar hugmynd sem allir fengu á sama tíma?

Fyrirmynd allra þessara síða kemur frá vefsíðu sem sett var í loftið í nóvember 2008 og heitir Groupon. Groupon var fyrsta síðan til að slá í gegn með þessu viðskiptamódeli en hún hefur riðið tröllum um öll Bandaríkin síðustu misseri og hefur síðan hasslað sér völl út um allan heim í gegn um kaup á svipuðum síðum. Til dæmis keypti Groupon síðurnar Darberry.ru í Rússlandi og Qpod.jp í Japan og rekur þær nú undir eigin nafni. Samkvæmt Wall Street Journal eru um 83 milljónir notendur sem fá tilboð sent daglega í gegn um tölvupóst og starfsmenn eru rétt yfir 7000 talsins og helmingurinn af þeim eru sölumenn.

Groupon er eitt af stjörnufyrirtækjunum sem er að ýta undir alla þá maníu sem ríkir í Kísildalnum þessa dagana og í byrjun júní sóttu þeir um skráningu á hlutabréfamarkað. Þeir eru all svakalega góðir með sig og höfnuðu til að mynda 6 milljarða dollara tilboði frá Google síðasta haust. Heildarverð fyrirtækisins er allt að 30$ milljarðar samkvæmt sumum fréttum. Og nota bene, á þeim 3 árum sem það hefur verið til hefur það ekki skilað hagnaði á einum einasta ársfjórðungi. Sagan segir að þegar bjallan glymur muni Groupon byrja í $25 milljarða virðinu.

Andrew Mason forstjóri Groupon

En það eru ekki allir sannfærðir um ágæti þessa fyrirtækis. Í fyrsta lagi hafa þeir eins og áður segir ekki ennþá skilað hagnaði og það lítur ekkert út fyrir að það gerist strax. Þeir hafa jú vaxið ógurlega mikið á fyrstu árunum og eitt gífurlegum fjárhæðum í þann vöxt en það vill svo til að þeir eru á markaði sem frekar auðvelt er að koma inn á.

Eftir að yfirtökutilboðinu var hafnað, ákvað Google að rúlla út Google Offers. Fyrst í Portland, Oregon og svo fylgdu New York City og San Fransisco í kjölfarið. Amazon, risinn í verslun á netinu ætlar ekki að láta þetta framhjá sér fara, og er farinn að keyra á “Daily deals”. Einnig eru síður eins og Living Social einnig að hassla sér völl án þess að vera að sporta keppnistapi eins og Groupon. Þeir þurfa einfaldlega að fara á markað til að geta haldið áfram að lifa því nú þegar þrengir að þá lokast allar lánalínur og það hægist á vextinum. Við skulum vona að það standi eitthvað eftir þegar markaðurinn jafnar sig aftur.

Ég hef talað um netbóluna hér og Kísildals-mafíuna hér. Ég myndi aldrei setja pening í þetta fyrirtæki eins og staðan er í dag.  Ég reikna með að þeir sem séu að fjárfesta í Groupon í dag séu að leita sér að skammtímaávinningi – þ.e. að kaupa bréfin og reyna að selja þau á sem hæstu verði – og sá sem kaupir sé með sama ávinning í huga. Þetta gerir ekkert nema að skapa bólu.

Rob Wheeler tók þetta allt saman í bloggfærslu á Harvard Business Review sem ber nafnið “Groupon doomed by too much of a good thing“. Ég leyfi honum að eiga síðasta orðið.

Update 8/9/11 – Ég var að taka eftir því að það fer að opna ný síða – www.kraftkaup.is! Hvar endar þetta?

Advertisements

Hvað segir þú?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s